Innlent

Thelma fær ekki að bera vitni í meiðyrðamáli Gunnars í Krossinum

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Gunnar Þorsteinsson og Thelma Ásdísardóttir.
Gunnar Þorsteinsson og Thelma Ásdísardóttir.

Thelma Ásdísardóttir, ráðgjafi fórnarlamba kynferðisofbeldis hjá samtökunum Drekaslóð, fær ekki að gefa skýrslu við aðalmeðferð í meiðyrðamáli Gunnars Þorsteinssonar í Krossinum gegn Vefpressunni, útgáfufélagi Pressunnar. Frá þessu greinir á mbl.is.



Gunnar stefndi Vefpressunni ásamt tveimur konum sem sökuðu Gunnar um kynferðisbrot og flutti Pressan fréttir af því. Hann krafðist 15 milljóna í skaðabætur, ásamt afsökunarbeiðni frá stefndu.



Lögmaður kvennanna krafðist þess að Thelma Ásdísardóttir fengi að bera vitni í málinu þar sem tvær aðrar konur hefðu leitað aðstoðar hennar og gengist undir meðferð hjá henni. Gunnar heldur því fram að um sé að ræða upplognar sakir en lögmaðurinn telur að Thelma gæti upplýst um málsatvik að þessu leyti gæfist henni kostur á að bera vitni í málinu. Þannig væri hægt að komast að því hvort ummælin sem féllu í umfjöllun Pressunnar væru rétt.



Lögmaður Gunnars sagði lagaumgjörðin skýr að þessu leyti, vitni gætu aðeins skýrt frá atvikum máls sem þau hafa upplifað af eigin raun en ekki sérfræðiatriði. Thelma hafi ekki verið viðstödd þessa atburði og hún hafi hitt konurnar löngu eftir að atvik áttu sér stað.



Dómarinn tók sér um hálftíma frest til að kveða upp úrskurð sem var á þá leið að kröfu kvennanna um að Thelma fengi að bera vitni var hafnað.



Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð í málinu fari fram 18. nóvember en það gæti frestast ef úrskurður þessur verður kærður til Hæstaréttar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×