Innlent

Ólína undrandi á málsmeðferð háskólaráðs

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Ólína Þorvarðardóttir er ekki sátt með málsmeðferð háskólaráðs Háskólans á Akureyri.
Ólína Þorvarðardóttir er ekki sátt með málsmeðferð háskólaráðs Háskólans á Akureyri. Mynd/Vísir
Ólína Þorvarðardóttir er undrandi á að enn hafi ekki verið gengið frá ráðningu hennar í stöðu sviðsforseta við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri frestaði á fundi háskólaráðs í gær skipun nýs sviðsforseta þar sem ekki þóttu forsendur á fundinum til að taka ákvörðun um ráðninguna.

Ólína segir að rektor þurfi að útskýra betur hvers vegna ekki var gengið frá ráðningunni á fundinum. „Ég undrandi á málsmeðferðinni. Undangengin er umsögn frá dómnefnd og sviðsfundur hefur kosið á milli umsækjenda þar sem ég var hlutskörpust og sviðsfundur hefur formlega mælt með minni ráðningu við rektor,“ sagði Ólína sem var í útlöndum þegar Vísir náði tali af henni. Hún segist ætla að reyna að afla sér frekari upplýsinga um málið áður en hún tjáir sig frekar.

Rektor segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um ráðningu á fundinum í gær þar sem ráðið taldi sig þurfa á frekari upplýsingum að halda. Rektor staðfesti við Vísi að ráðningastofa væri nú komin í ráðningaferlið sem muni meta umsækjendur enn frekar.

„Háskólaráð vildi afla sér frekari upplýsinga og það var gert,“ segir Stefán sem segir ekkert óeðlilegt við það að fá ráðningastofu inn í ferlið á þessum tímapunkti. Hann vísar því á bug að öfl innan skólans séu að reyna að hafa áhrif á ráðningu sviðsforseta. „Við áttum hreinlega erfitt með að velja á milli umsækjenda. Það er auðveldara að ráða í starf þegar einn umsækjandi sker sig úr. Í þessu tilfelli vorum við með fjóra jafna umsækjendur. Þetta eru einfaldlega fagleg vinnubrögð og þau sömu sem höfð voru uppi þegar síðast ráðið í þessa sömu stöðu.“

Í kosningu á milli umsækjenda meðal starfsmanna hug- og félagsvísindasviðs voru Ólína og Rögnvaldur Ingþórsson jöfn með 16 atkvæði. Sigrún Stefánsdóttir, fyrrverandi dagskrárstjóri Rúv, hlaut 13 atkvæði. Aftur var kosið á milli tveggja efstu þar sem Ólína hlaut 20 atkvæði og Rögnvaldur 19. Því var búist við að Ólína yrði ráðin í starf sviðsforseta á fundi háskólaráðs í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×