Innlent

Þrír af fjórum neituðu sök í Glitnismáli

Elimar Hauksson skrifar
Jóhannes Baldursson og Elmar Svavarsson
Jóhannes Baldursson og Elmar Svavarsson mynd/GVA
Þingfesting fór í dag fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sérstaks saksóknara gegn fjórmenningunum Elmari Svavarssyni, Jóhannesi Baldurssyni, Magnúsi Arngrímssyni og fyrrum landsliðsmarkverðinum Birki Kristinssyni.

Mennirnir eru ákærðir fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga. Málið tengist 3,8 milljarða lánveitingu Glitnis til félags í eigu Birkis í nóvember 2007 en félagið, BK-44, keypti hlut í Glitni fyrir andvirði lánsins.

Samkvæmt ákæru sérstaks saksóknari voru bréfin keypt aftur af Birki sumarið 2008 á yfirverði og er tjón bankans af þessum viðskiptum metið á 1,9 milljarða. Birkir sem þá var yfirmaður einkabankaþjónustu Glitnis er ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikunum, en til vara hylmingu og peningaþvætti.

Allir lýstu sakborningar sig saklausa nema Birkir, sem vildi ekki taka afstöðu til sakarefnisins fyrr en úrskurðað hefur verið um frávísunarkröfu sem var lögð fram við þingfestingu. 

Flutningur frávísunarkröfu fer fram þann 18. október í Héraðsdómi Reykjavíkur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×