Erlent

Bróðir Assads sagður standa á bak við efnavopnaárásina

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bræðurnir Maher og Bashar al Assad.
Bræðurnir Maher og Bashar al Assad. Nordicphotos/AFP
Maher al Assad er yngri bróðir Bashars Sýrlandsforseta. Báðir eru alræmdir en Maher sagður hálfu verri. Hann er nú sakaður um að hafa gefið skipun um að beita efnavopnum í úthverfum Damaskusborgar í síðustu viku.

Þetta hefur fréttavefurinn Bloomberg eftir ónafngreindum starfsmanni Sameinuðu þjóðanna. Sá er sagður starfa við eftirlit með stríðsátökum í þessum heimshluta. 

Maher stjórnar sérsveitum hersins, bæði Lýðveldisvörðunum svonefndu og fjórðu vopnadeildinni, en hún er sögð hafa gert árásina í Damaskus þann 21. ágúst.

Heimildarmaður Bloombergs segir mögulegt að forsetinn sjálfur hafi ekki átt neinn hlut að ákvörðun yngri bróður síns um notkun efnavopna. 

Allt eru þetta getgátur, en gætu skipt máli í framhaldinu fari svo að Bandaríkin og fleiri ríki á Vesturlöndum ákveði að gera loftárásir á Sýrland.

Bashar forseti hafði lengst af forsetaferli sínum þá ímynd að þar færi hófsamur maður, menntaður á Vesturlöndum og áhugasamur um velferð þjóðar sinnar.

Yngri bróðurnum var aftur á móti frá upphafi fengið það hlutverk að sinna óvinsælli verkefnum, stjórna hernum af miskunnarleysi og gæta þess að engir veikleikar verði veldi fjölskyldunnar að falli.

Almenningur í Sýrlandi er sagður sannfærður um að Maher sé sá sem ráði mestu um hörkuna, sem stjórnarherinn hefur sýnt gagnvart uppreisnarmönnum undanfarin misseri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×