Erlent

Sektaður fyrir að gleypa afskorna tá

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Hefð er fyrir því að dýfa tánni í salt og setja hana svo í drykki.
Hefð er fyrir því að dýfa tánni í salt og setja hana svo í drykki.
Hefð er fyrir því á hóteli einu í Kanada að setja afskorinni tá af manni í drykki áður en þeirra er neytt. Á dögunum gerðist þó einn gesta hótelbarsins svo kræfur að gleypa tána.

Þessi undarlega hefð á rætur sínar að rekja til áttunda áratugarins og dýfir fólk þessari dökkbrúnu tá í salt áður en hún er sett í drykkinn. Yfir 52 þúsund manns hafa tekið áskoruninni og fá allir sem það gera viðurkenningarskjal. 500 dala sekt er þó við því að gleypa tána.

Það stöðvaði ekki Josh nokkurn frá New Orleans og hámaði hann tána í sig, skellti peningunum á barborðið og gekk út. „Ég spurði hann hvar táin væri og hann sagðist hafa gleypt hana,“ sagði barþjónninn Terry Lee í samtali við kanadíska fréttastofu og bætti því við að hann hefði verið í sjokki.

Josh Martin, fastagestur hótelbarsins, segist hafa reynt við áskorunina og segir hann einungis hafa fundið bragðið af viskíinu sínu, en táin hefði verið eins og þurrkað kjöt með áfastri nögl. „Ég fæ ennþá hroll þegar ég hugsa um tunguna mína þegar hún snerti hrjúfa afskorna endann.“

Nú leita eigendur hótelbarsins að nýrri tá og þegar það tekst verður sektin við því að gleypa hana hækkuð upp í 2.500 dali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×