Erlent

Vilja að fjöldamorðingi verði tekinn af lífi

Þorgils Jónsson skrifar
Robert Bales bíður lífstíðarvist í fangelsi eftir að hafa játað að hafa drepið sextán óbreytta Afgana í fyrra.
Robert Bales bíður lífstíðarvist í fangelsi eftir að hafa játað að hafa drepið sextán óbreytta Afgana í fyrra. Nordicphotos/AFP
Aðstandendur þeirra sextán Afgönsku borgara sem féllu fyrir hendi bandaríska hermannsins Robert Bales á síðasta ári eru ævareiðir yfir því að honum skuli hlíft við dauðadómi fyrir morðin. Réttarhöld yfir Bales hefjast í Bandaríkjunum á morgun.

Mál Bales vakti mikla athygli á sínum tíma enda varpaði það ljósi á það mikla vantraust sem ríkti milli afganskra borgara og bandarískra hermanna sem verið hafa í landinu frá árinu 2001. Bales hefur játað að hafa, á aðfararnótt 1. mars í fyrra, laumast í tvígang út úr herstöð sinni í Kandahar héraði og gengið hús úr húsi í tveimur nærliggjandi þorpum þar sem hann skaut fólk af handahófi, þar af níu börn og fjórar konur.

Bales neitaði lengi vel að tjá sig um atburði næturinnar, en sneri við blaðinu í vor og játaði á sig sök gegn því að sleppa við dauðadóm. Það eru aðstandendur fórnarlamba hans afar ósátt við.

Þetta er mannskæðasta atvik af þessu tagi sem komið hefur upp hjá bandaríska hernum frá árum Víetnamstríðsins. Bales er afar reyndur hermaður sem hafði margoft þjónað í Írak og Afganistan, en verjendur hans hafa haldið því fram að hann hafi þjáðst af áfallstreituröskun og heilaskaða þegar hann hélt í drápsförina.

Vitni í fyrirtöku vegna málsins segja að Bales hafi fyllst mikilli reiði eftir að félagi hans missti fót í sprengjutilræði nokkrum dögum fyrir árásina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×