Erlent

25 lögreglumenn drepnir í Egyptalandi

Þorgils Jónsson skrifar
25 lögreglumenn voru teknir af lífi í árás byssumanna á Sínaí skaga, þar sem þessi mynd er tekin, í morgun.
25 lögreglumenn voru teknir af lífi í árás byssumanna á Sínaí skaga, þar sem þessi mynd er tekin, í morgun. NordicPhotos/AFP
Hópur vígamanna myrtu 25 egypska lögreglumenn á frívakt á norðanverðum Sínaí-skaga í morgun. Lögreglumennirnir voru á ferð í tveimur sendibílum. Byssumennirnir stöðvuðu bílana og skipuðu mönnunum út. Eftir það voru þeir neyddir til að leggjast á jörðina þar sem þeir voru teknir af lífi.

Þar að auki eru tveir særðir, en með lögreglumönnunum og þeim 36 mótmælendum sem létust í haldi lögreglu í gær er tala fallinna í Egyptalandi komin fast að 1.000 manns.

Ríkisstjórn landsins, sem er studd af hernum, lýsti yfir neyðarástandi í landinu eftir að átök brutust út þar sem öryggissveitir lögðu til atlögu við stuðningsmenn Morsís forseta sem var settur af stóli í síðasta mánuði.

Mikil spenna ríkti í landinu í gær þar sem boðað hafði verið til meiriháttar mótmæla, en her og lögregla gripu til rástafana áður en til þess kom, meðal annars með því að auka viðbúnað á almenningsstöðum og handtaka hundruð forvígismanna Bræðralags múslima.

Minni mótmæli voru þó víða um land og kom meðal annars til átaka í Alexandríu og Assiut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×