Fótbolti

Sótti ráð í smiðju Norðmanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. Mynd/Ernir
„Ég ræddi við þjálfara Hödd sem mætti Aktobe. Hann gaf mér nokkur góð ráð sem ég ætti að geta nýtt mér," segir Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.

Þeir grænu og hvítu úr Kópavoginum sækja Aktobe heim í Kasakstan í fyrri leik liðanna í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Blikar slógu út Sturm Graz í 2. umferð en Aktobe hafði betur í baráttueinvígi gegn norska b-deildarliðinu Hödd.

„Við höldum til Kasakstan sem litla liðið. Það er nóg að skoða styrkleikalistann hjá UEFA til þess að átta sig á því," segir Ólafur Kristjánsson í viðtali á heimasíðu Knattspyrnusambands Evrópu.

„Við höfum hins vegar sankað að okkur heilmiklum upplýsingum um mótherjana úr leikjum þeirra í 1. og 2. umferð," segir Ólafur. Vísar hann þar meðal annars í samtal sitt við þjálfara Hödd.

Breiðablik hefur spilað afar agaðan leik í Evrópudeildinni í vetur og á enn eftir að fá á sig mark. Liðið lagði andstæðing frá Andorra í 1. umferðinni samanlagt 4-0 og Sturm Graz 1-0. Við bætist að liðið lagði Rosenborg í síðari leik liðanna í forkeppni Meistaradeildar sumarið 2011 2-0. Í fimm Evrópuleikjum í röð hafa Blikar haldið marki sínu hreinu.

„Útileikurinn verður sérstaklega erfiður. Við þurfum að spila við veðuraðstæður sem við erum óvanir. Ég hef því lagt leikinn upp öðruvísi hvað það varðar," segir Ólafur.

„Við spilum öðruvísi í Evrópukeppnum. Þá leggjum við meiri áherslu á að vera þéttir og bjóða ekki hættunni heim."

Leikur Aktobe og Breiðabliks hefst klukkan 16 og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×