Erlent

Ætlar á þing sem rannsóknarblaðamaður

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Julian Assange á svölum sendiráðs Ekvadors í London í lok síðasta árs.
Julian Assange á svölum sendiráðs Ekvadors í London í lok síðasta árs. Nordicphotos/AFP
Julian Assange vonast til þess að verða kosinn á þing í Ástralíu í næsta mánuði. Hann býður sig þar fram fyrir WikiLeaks-flokkinn.

Hann er staðráðinn í að halda áfram starfi sínu fyrir Wikileaks, jafnvel þótt hann setjist á þing, og segist ekki sjá að hlutverk sitt sem öldungadeildarþingmanns verði ýkja frábrugðið því sem hann hefur verið að gera til þessa.

Þetta kom fram í spjalli hans við ástralska blaðamenn á netinu í gærkvöld. 

„Við þurfum að senda snarpa rannsóknarblaðamenn inn á öldungadeildina,” er haft eftir honum á vefsíðu ástralska dagblaðsins The Age: „Fólk sem sérhæfir sig í að afhjúpa lygar og ljóstra upp um leynimakk.”

Assange gerir sér jafnframt vonir um að geta loks komist út úr sendiráðsbyggingu Ekvadors í London, verði hann kosinn til þings. Bretum beri þá skylda til þess, samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum, að tryggja að hann komist úr landi.

Assange hefur verið innilokaður í sendiráðsbyggingunni í meira en ár. Hann leitaði þar skjóls í júní á síðasta ári af ótta við að verða framseldur til Bandaríkjanna.

Ekvador veitti honum pólitískt hæli í ágúst á síðasta ári, en bresk stjórnvöld segja að fari hann út úr byggingunni verði hann handtekinn og framseldur til Svíþjóðar, þar sem saksóknari vill ræða frekar við hann vegna ásakana um kynferðisbrot gegn tveimur konum.

Assange óttast að framsalið til Svíþjóðar verði aðeins fyrsta skrefið í framsali hans til Bandaríkjanna, vegna uppljóstrana um bandarísk leyndarmál á vefsíðunni Wikileaks.

Þingkosningar verða í Ástralíu þann 7. september. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×