Innlent

Salem-sígarettur gætu heyrt sögunni til

Kristján Hjálmarsson skrifar
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segist ekki vita hvenær bannið taki gildi hér á landi.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segist ekki vita hvenær bannið taki gildi hér á landi.
"Við vissum að þessi reglugerð væri í burðarliðnum hjá Evrópusambandinu. Hún mun væntanlega taka gildi hér á landi en ég veit ekki hvenær það verður. Það verður einhver aðlögunartími," segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR.

Samkvæmt nýrri reglugerð um tóbaksvarnir sem samþykktar voru hjá Evrópuþinginu í dag verða bragðbættar sígarettur bannaðar, þar á meðal sígarettur með mentólbragði. Hugmyndin með banninu er að reyna að draga úr reykingum hjá ungu fólki.

Allar líkur eru á að reglugerðin taki gildi hér á landi og má þá vænta þess að vinsælar sígarettutegundir á borð við Salem verði bannaðar og teknar úr sölu. Sígarettur með mentólbragði eru um 20% af öllum seldum sígarettum hér á landi, samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR.

Johann Thulin Johansen, sem rekur tóbaksbúðina Björk í Bankastræti, sagði í samtali við Vísi í morgun að eldra fólk væri hrifnari af mentólsígarettum en það yngra.

"Mentól er alls ekki bragð sem höfðar sérstaklega til yngri reykingarmanna," segir Johann Thulin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×