Innlent

Mótmælt með kossum á morgun

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Svandís Anna Sigurðardóttir er ritari Samtakanna 78.
Svandís Anna Sigurðardóttir er ritari Samtakanna 78. samsett mynd
Samtökin 78 boða til kossamótmæla fyrir framan rússneska sendiráðið á morgun klukkan 5. Nýrri löggjöf sem samþykkt var í neðri deild rússneska þingsins í vikunni verður mótmælt, en hún gerir það meðal annars refsivert að halda því fram að samkynhneigð sé jafn eðlileg og gagnkynhneigð.

Svandís Anna Sigurðardóttir, ritari Samtakanna 78, segir að með löggjöfinni sé verið að útiloka samkynhneigða úr samfélaginu.

„Við viljum vekja athygli á þessu máli og að fólk átti sig á því hvað er að gerast í Rússlandi,“ segir Svandís við fréttastofu Vísis. „Það er búið að vera mikil herferð gegn hinsegin fólki þar í landi og núna er þetta að birtast mjög skýrt. Með löggjöfinni er í raun verið að útskúfa hinsegin fólki úr samfélaginu.“

Svandís segir að nýja löggjöfin banni meðal annars gleðigöngur, fræðsla um samkynhneigð yrði bönnuð og sýnileiki hinsegin fólks á götum úti yrði í lágmarki.

„Við erum mjög hrædd við þessa löggjöf, okkur líst ekkert á þetta, og við krefjumst þess að íslensk stjórnvöld sýni einhver viðbrögð og fordæmi þetta.“

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fjallaði um málið á þingi í morgun.

„Samþykktir eins og komu fram í fréttum í gær eru með ólíkindum, og hljóta að vekja lýðræðisríki eins og Ísland til umhugsunar um með hvaða hætti við förum með þetta dýrmæta vald sem við höfum í lýðræðisríkjum. Mér finnst þessi þróun alvarleg og mér finnst að ríki eins og Ísland eigi að láta sig skipta þessi mál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×