Fótbolti

Enn óvíst hvort við fáum áfengisleyfi

Jón Kaldal, formaður Þróttar.
Jón Kaldal, formaður Þróttar.

Eins og Vísir greindi frá fyrr í dag þá stendur til að vera með skemmtun fyrir áhorfendur áður en landsleikur Íslands og Slóveníu hefst í byrjun júní. Stefnan er meðal annars að vera með bjórtjald á svæði Þróttara en það væri þá í fyrsta skipti sem bjórsala færi fram í Laugardalnum fyrir landsleik í knattspyrnu.

Þróttarar bíða enn eftir því að fá áfengisleyfi fyrir leikinn en málið er í ferli hjá borgaryfirvöldum.

"Það er enn stórt ef hvort við getum verið með þetta bjórtjald. Það verður að sjálfsögðu ekki nema við fáum öll tilskilin leyfi. Þau eru ekki komin," sagði Jón Kaldal, formaður Þróttar, en hann segir Þróttara leggja sig í líma við að standa faglega að málinu.

"Ef að bjórtjaldið verður opið þá verður það aðeins á milli 16 og 18. Við munum loka klukkutíma fyrir leik. Það fá að sjálfsögðu engin börn að fara þar inn nema í fylgd með fullorðnum og við munum vera með góða öryggisgæslu."

Margir hafa kallað eftir því á síðustu árum að áhorfendum á Laugardalsvelli sé leyft að fá sér bjór fyrir leik. Ekki síst í ljósi þess að bjór og léttvín hefur lengi verið veitt í heiðursstúku.

"Þetta er tilraunaverkefni hjá okkur og við viljum vinna það vel með öllum sem að málinu þurfa að koma. Við trúum því að það sé hægt að gera þetta á jákvæðan hátt."

Fyrir utan bjórtjaldið þá ætla Þróttarar að vera með hoppukastala fyrir börnin og svo munu sérfræðingar fara yfir leikinn með áhugasömum fyrir leik.


Tengdar fréttir

Bjór líklega seldur í Laugardalnum

Fram kom á blaðamannafundi KSÍ í dag að boðið verði upp á ýmsar uppákomur fyrir landsleikinn gegn Slóvenum í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×