Fótbolti

Bjór líklega seldur í Laugardalnum

Fram kom á blaðamannafundi KSÍ í dag að boðið verði upp á ýmsar uppákomur fyrir landsleikinn gegn Slóvenum í næsta mánuði.

Sú skemmtun mun fara fram á félagssvæði Þróttar sem er við hlið Laugardalsvallarins. Það er Þróttur sem stendur fyrir uppákomunni en ekki KSÍ þó svo þeir komi að málum í samstarfi við styrktaraðila sína.

Á gervigrasinu verða hoppukastalar fyrir börnin og inn í húsi munu sérfræðingar sjá um töflufund fyrir leik.

Á grasbalanum þar við hliðina stendur síðan til að setja upp bjórtjald að því gefnu að áfengisleyfi fáist en fastlega er búist við því að það fáist samkvæmt heimildum Vísis.

Lengi hefur verið kallað eftir því að seldur verði bjór á Laugardalsvelli en aðeins VIP-gestir á vellinum hafa hingað til getað fengið sér mjöð með leiknum.

Þetta verður því í fyrsta skipti sem bjór verður seldur í Laugardalnum á landsleik.

Það er fátt sem bendir til þess að áfengisleyfi fáist á Laugardalsvelli í nánustu framtíð en þeir sem vilja gera sér glaðan dag í góðra vina hópi þurfa væntanlega aðeins að fara nokkra metra út fyrir vallarsvæðið til þess að skála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×