Innlent

„Bieber Fever" eru trúarbrögð samkvæmt íslenskri BA ritgerð

Jóhannes Stefánsson skrifar
Aðdáendur Biebers eru sumir trúariðkendur samkvæmt niðurstöðum BA-ritgerðarinnar
Aðdáendur Biebers eru sumir trúariðkendur samkvæmt niðurstöðum BA-ritgerðarinnar Mynd/ AFP

Háttsemi aðdáenda Bieber er sambærileg því sem þekkist í trúarbrögðum. Þetta er niðurstaða Sigurlínar Sumarliðadóttur, nemanda við guðfræðideild Háskóla Íslands.

Sigurlín skrifaði BA-ritgerð í guðfræði þar sem hún velti því fyrir sér hvort svokallað „Bieber Fever" gæti talist átrúnaður. Ritgerðin varpar ljósi á aðdáun unglingsstúlkna á Bieber og tengir við ýmsar kenningar guðfræðinnar. Niðurstaðan er sú að háttsemi aðdáenda Bieber er sambærileg því sem þekkist í öðrum trúarbrögðum.

Rannsóknarspurning ritgerðarinnar er sú hvort aðdáun unglingsstúlkna á poppstirninu geti flokkast sem trú. Niðurstaðan er fengin með því að beita svokallaðri hlutverkaskilgreiningu, en samkvæmt henni þarf ákveðin háttsemi að uppfylla viss skilyrði til að geta talist til trúarbragða.

Niðurstaða ritgerðarinnar er sú að um sé að ræða svokallaða óopinbera trú. „Í ritgerðinni kemur fram að hegðun aðdáendanna einkennist af ýmisskonar hegðun og venjum sem gjarnan má finna í trúarbrögðum," segir Sólveig Anna Bóasdóttir dósent við guðfræðideild HÍ og leiðbeinandi Sigurlínar.

„Það að hlusta á Bieber og horfa á myndbönd með honum eru þá ákveðnar helgiathafnir. Tónleikaferðir eru þá einskonar pílagrímsferðir og Bieber sjálfur er þar ákveðið sameiningartákn. Bieber sameinar hópinn þar sem þær [aðdáendurnir innsk. blm.] upplifa sig sem eina heild í aðdáun sinni á honum," bætir hún við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×