Erlent

Morðingi Bulger „enn hættulegur"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Denise Fergus
Denise Fergus Nordicphotos/Getty

Móðir James Bulger telur þá sem fremja alvarlega glæpi þurfa þyngri refsingar. Tuttugu ár eru liðin frá því tveggja ára sonur hennar var myrtur í Liverpool á Englandi.

James Bulger var numinn á brott frá Strand-verslunarmiðstöðinni í hverfinu Bootle í Liverpool þann 12. febrúar 1993. Öryggismyndavélar sýndu tvo tíu ára drengi, Jon Venables og Robert Thompson, leiða Bulger í burtu. Þeir fóru með hann að lestarteinum þar sem þeir pyntuðu hann áður en þeir skildu lík hans eftir. Lest keyrði svo yfir líkið.

Venables og Thompson voru dæmdir í lífstíðarfangelsi fyrir morð en var sleppt tæpum átta árum síðar og gefin ný nöfn.

Denise Fergus, móðir Bulger, segir í viðtali við Sky News að gera þurfi breytingar á lagakerfinu svo morðingjar fái harðari refsingu.

„Það þarf að koma þeim í skilning um að það sem þeir gerðu er rangt. Ef þeir fá nógu harða refsingu þá hugsa þeir sig kannski tvisvar um áður en þeir brjóta aftur af sér," segir Fergus í viðtali við Sky News.

Jon VenablesNordicphotos/Getty

„Það sem ég meina er að það þarf að hætta með þessa heimskulegu dóma eins og fimm eða tíu ár. Ef þeir fá tíu ára dóm á ekki að stytta þá um fimm ár vegna góðrar hegðunar."

Venables var dæmdur í fangelsi á ný árið 2010 fyrir niðurhal og dreyfingu barnakláms. Lengi vel var ekki gefið upp hvers vegna Venables hafði verið handtekinn. Ástæðan kom þó í ljós þegar mál hans var tekið fyrir af dómstólum.

Fergus mun á næstunni koma fyrir skilorðsnefnd Bulger. Það verður í fyrsta skipti sem hún sækir fund nefndarinnar í eigin persónu. Í viðtalinu við Sky News segist hún hafa áhyggjur af því að morðið á syni hennar hafi tengst kynhvötum morðingjanna. Hún telur þá hlið málsins aldrei hafa verið rannsakaða nægilega vel.

„Ég hvet þá til þess að sleppa honum ekki þar sem ég tel að hann sé enn hættulegur. Hann er tifandi tímasprengja og hefur alltaf verið," segir Fergus.

Robert ThompsonNordicphotos/Getty

„Eftirlitsmaður átti að fylgjast með honum. En að hann hafi komið upp þessu safni ljósmynda á fartölvu sinni er ótrúlegt og sýnir að hann var ekki undir neinu eftirliti."

„Ég er ekki að segja að það eigi að læsa hann inni fyrir lífstíð. En þar til hann fer að hugsa skýrt þarf hann að sitja inni. En ég veit ekki hvort hann muni nokkurn tímann hugsa nægilega skýrt," segir Fergus. Hún vill ekki að Venables fái nýtt auðkenni næst þegar hann verður látinn laus.

Hún segir alla munu fylgjast vel með því þegar Venables verði látinn laus á ný. Því sé sú hætta fyrir hendi að fólk muni verða tortryggið í garð nýs nágranna sem eigi ekkert skylt við málið.

Komið hefur fram að breskur maður þurfti að sæta tilefnislausum ásökunum um morðið á Bulger í tæp fimm ár. Það var ekki fyrr en Venables var handtekinn á ný árið 2010 sem ásökununum linnti. Þá var hann fluttur úr hverfinu.

Tæpur mánuður var í þriggja ára afmæli James Bulger þegar hann var myrtur.Nordicphotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×