Fótbolti

Gervinho með sigurmark og stoðsendingu í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gervinho.
Gervinho. Mynd/AFP
Gervinho, leikmaður Arsenal, tryggði Fílabeinsströndinni, 2-1 sigur á Tógó í fyrsta leik liðsins í Afríkukeppninni sem fer þessa dagana fram í Suður-Afríku. Yaya Touré, leikmaður Manchester City skoraði fyrra mark Fílabeinsstrandarinnar í leiknum og þá eftir stoðsendingu frá umræddum Gervinho.

Yaya Touré kom liði Fílabeinsstrandarinnar í 1-0 strax á áttundu mínútu leiksins eftir sendingu frá Gervinho. Jonathan Ayité, leikmaður Bordeaux í Frakklandi, jafnaði leikinn í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Gervinho skoraði sigurmarkið tveimur mínútum fyrir leikslok með flottu skoti á fjærstöng eftir aukaspyrnu frá Yaya Touré. Didier Drogba hafði verið tekinn af velli fjórtán mínútum fyrr.

Það er óhætt að segja að það sé mikið um jafntefli í fyrstu leikjum Afríkukeppninnar í ár því fimm af sjö fyrstu leikjunum hafa endað með jafntefli þar af voru tveir fyrstu leikirnir markalausir.

Eina liðið fyrir sigur Fílabeinsstrandarinnar í dag til að vinna sinn leik var lið Malí sem vann 1-0 sigur á Níger. Seydou Keita, fyrrum leikmaður Barcelona, skoraði eina markið í þeim leik. Síðasti leikur fyrstu umferðar riðlakeppninnar er á milli Túnis og Alsír seinna í kvöld.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×