Erlent

Söngveðrið brást Beyoncé

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Sálarsöngkonan Aretha Franklin segist skilja hvers vegna Beyoncé tók þá ákvörðun að „mæma" flutning sinn á þjóðsöng Bandaríkjanna við vígsluathöfn Obama forseta á mánudag.

Uppátækið hefur valdið fjaðrafoki vestra, en talað er um að söngvarar mæmi þegar þeir þykjast syngja, með því að hreyfa varirnar í takt við söng sem hljóðritaður er fyrirfram. Staðfest hafði verið að undirleikur hljómsveitar Beyoncé hefði verið fyrirfram hljóðritaður, en framan af var ekki vitað hvort söngurinn hefði verið það.

Nú þykir hins vegar ljóst að Beyoncé söng ekki eina einustu nótu við vígsluathöfnina, og hafa fjölmiðlar vestra kallað málið „Beyoncégate". Vísa þeir þar til Watergate-hneykslisins frá 1974, þar sem upptökubúnaður á forsetaskrifstofu þáverandi Bandaríkjaforseta, Richard Nixon, bendlaði hann við innbrot í höfuðstöðvar Demókrataflokksins.

Aretha segir ómögulegt söngveður hafa verið við athöfnina, og sé það vel þekkt meðal söngvara að varhugavert sé að syngja í miklum kulda. Frost hafi verið í Washington þennan dag og því hárrétt ákvörðun hjá Beyoncé að syngja frekar í þykjustunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×