Erlent

Beðið um aðstoð til að bjarga 11 háhyrningum á Hudson flóa

Bæjarstjórinn í bænum Inukjuak við norðanverðann Hudson flóann hefur beðið stjórnvöld um aðstoð við að bjarga 11 háhyrningum sem þar eru fastir í ís.

Háhyrningarnir eru fastir undir samfelldum hafís við ströndina fyrir utan bæinn. Þeir hafa aðeins eina vök til að anda um en sú vök fer hratt minnkandi.

Bæjarstjórinn Peter Inukpuk segir að háhyrningarnir verði æ örvæntingarfyllri eftir því sem vökin skreppur saman og eru lengi í burtu frá henni í einu, sennilega í leit að annarri vök.

Svo virðist sem háhyrningar þessir hafi villst inn á þetta hafsvæði því þeir hafa ekki áður sést á þar í janúar.

Bæjarstjórinn hefur beðið stjórnvöld um að senda ísbrjót á staðinn til að aðstoða háhyrningana áður en það verður um seinan og þeir kafna undir ísnum.

Það eru hinsvegar engir ísbrjótar á lausu í augnablikinu vegna mikilla anna. Meðal annars er verið að bjarga þremur flutningaskipum sem nú sitja föst í ís á Lawrence fljótinu í Quebec.

Hópur manna frá Hafrannsóknarstofnun Kanada er á leið til Inukjuak til að kanna aðstæður.

Á myndskeiði sem fylgir þessari frétt getur þú séð hvalina fasta í ísnum. Myndbandið er tekið af bæjarbúa í Inukjuak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×