Erlent

Mafíuforingi segist vita hvar Jimmy Hoffa er grafinn

Hvarf verkalýðsforingjans Jimmy Hoffa er enn og aftur komið í sviðsljós bandaríska fjölmiðla. Fyrrum liðsforingi í mafíunni í Detroit segir að hann viti hvar Hoffa sé grafinn.

Sá sem hér um ræðir heitir Anthony Zerilli og er orðinn 85 ára gamall. Hann segir í samtali við sjónvarpsstöð í Detroit að þeir sem myrtu Hoffa hafi fyrst komið líki hans fyrir í grunnri gröf skammt frá þeim stað sem Hoffa hvarf árið 1975. Síðan hafi verið ætlunin að flytja líkið og grafa það að nýju við veiðikofa í Michigan. Af þeim áformum hafi hinsvegar aldrei orðið.

Í frétt AP fréttaveitunnar um málið er haft eftir Scott Bernstein sérfræðingi í sögu mafíunnar í Detroit að Zerilli sé áreiðanlegasta vitni um afdrif Hoffa sem enn hafi komið fram.

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur eytt miklu af fjármunum og mannskap í að reyna að finna lík Hoffa frá því hann hvarf frá Machus Red Fox veitingahúsinu í Bloomfield Hills fyrir 37 árum en án árangurs.

Það er hinsvegar almennt talið að mafían hafi myrt Hoffa þar sem hún vildi ekki að hann kæmist að nýju til áhrifa innan Teamsters verkalýðsfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×