Enski boltinn

Owen svaraði fyrir sig með mynd af verðlaunaskápnum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Verðlaunaskápur Michael Owen.
Verðlaunaskápur Michael Owen. Mynd/Twittersíða Michael Owen
Michael Owen var ekki í hópnum hjá Stoke í tapinu á móti Manchester City í gær og hefur ekki spilað með liðnu síðan í lok október. Owen tjáði sig aðeins um leikinn við City á twitter-síðu sinni í gær og fékk í framhaldinu yfir sig flóð af neikvæðum og móðgandi ummælum.

Owen skrifaði skömmu síðar inn á twitter-síðu sína að það sé komið nýtt ár en hlutirnir breytist ekkert. "100 svör við síðustu færslu og öll voru þau dónaleg. En æðislegur heimur sem við lifum í," skrifaði Owen.

Stuttu síðar ákvað hann að setja inn mynd af verðlaunaskápnum sínum til að rifja upp feril sinn fyrir þá sem hafa stutt minni. Í skápnum er meðal annars Gullboltinn sem hann fékk fyrir að vera kosinn besti knattspyrnumaður Evrópu árið 2001 þegar hann vann þrjá titla með Liverpool.

Michael Owen átti frábær ár með Liverpool (158 mörk í 297 leikjum) og enska landsliðinu (40 mörk í 89 landsleikjum) áður en hann fór til Real Madrid á Spáni. Síðan þá hefur hann glímt við sífelld meiðsli og því ekki náð að sýna sitt rétta andlit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×