Enski boltinn

Wright-Phillips tryggði QPR óvæntan sigur á Chelsea

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
QPR vann afar óvæntan sigur á Chelsea í Lundúnarslag á Stamford Bridge í kvöld. Shaun Wright-Phillips skoraði eina mark leiksins tólf mínútum fyrir leikslok.

Marko Marin var í fyrsta skipti í byrjunarliði Chelsea í deildinni og var fljótur að láta finna fyrir sér. Þjóðverjinn átti með réttu að fjúka útaf með rautt spjald á fjórðu mínútu fyrir fólskulegt brot. Lee Mason, dómari leiksins, lyfti hins vegar aðeins gulu spjaldi.

Heimamenn réðu gangi leiksins en gekk illa að skapa sér opinn færi. Liðið virtist sakna Spánverjans Juan Mata tilfinnanlega auk þess sem Frank Lampard virtist heillum horfinn eftir góða frammistöðu í undanförnum leikjum.

Eina mark leiksins kom á 78. mínútu þegar Shaun Wright-Phillips fékk boltann utan teigs eftir hornspyrnu. Kantmaðurinn sendi boltann með jörðinni í fjærhornið við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna.

Wright-Phillips fagnaði markinu af óvenju mikilli hógværð en kantmaðurinn spilaði á sínum tíma með Chelsea.

Úrslitin eru mikil vonbrigði fyrir Chelsea sem situr í fjórða sæti deildarinnar með 38 stig. Lið QPR þurfti svo sannarlega á stigunum þremur að halda. Liðið hefur nú 13 stig líkt og Reading á botni deildarinnar. Reading hefur þó betra markahlutfall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×