Enski boltinn

Redknapp: Ég elska Joe Cole

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Cole
Joe Cole Mynd/Nordic Photos/Getty
West Ham er langt komið með að ganga frá kaupunum á Joe Cole frá Liverpool en það er ljóst að annar stjóri var tilbúinn að fá þennan 31 árs gamla leikmann til sín í janúarglugganum. Joe Cole fer í læknisskoðun hjá West Ham í dag.

Joe Cole hefur ekki fundið taktinn hjá Liverpool síðan að hann kom þangað frá Chelsea árið 2010 en hann var í láni hjá franska félaginu Lille á síðustu leiktíð. West Ham verður að kaupa Cole frá Liverpool því liðið er þegar með Andy Carroll á láni frá Liverpool.

Queens Park Rangers og stjóri þess Harry Redknapp lifðu í voninni um að næla í Joe Cole en það eru ekki miklar líkur á því að samningar náist ekki á Upton Park.

„Ég elska Joe Cole. Ég fékk hann til West Ham þegar hann var bara 11 ára gamall og ég er búinn að tala við hann. Hann hafði áhuga á því að koma til okkar og þetta er frábær strákur," sagði Harry Redknapp við BBC.

„Það væri frábær staður fyrir hann að koma til okkar. Hann er frábær leikmaður en West Ham kom inn á síðustu stundu og það er erfitt fyrir okkur að keppa við það. West Ham er hans félag og þar byrjaði hann ferilinn. Stuðningsmennirnir eiga eftir að elska það að fá hann aftur heim og ég óska honum alls hins besta þar," sagði Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×