Enski boltinn

Zlatan: Balotelli er besti leikmaður Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli og Zlatan Ibrahimovic.
Mario Balotelli og Zlatan Ibrahimovic. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sænski knattspyrnukappinn Zlatan Ibrahimovic er mikill aðdáandi Mario Balotelli hjá Manchester City. Kannski sér hann sjálfan sig í ítalska ungstirninu sem hefur gengið illa að fóta sig innan sem utan vallar inn á milli þess að hann sýnir heimsklassaframmistöðu inn á vellinum. Zlatan ráðleggur City-mönnum að sýna Mario Balotelli ást og umhyggju ef þeir ætli að ná eitthvað út úr honum.

Manchester City er nú sjö stigum á eftir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni og Zlatan Ibrahimovic segir að eini maðurinn sem geti unnið titilinn fyrir City sé gamli liðsfélagi hans út Internazionale, Mario Balotelli.

Mario Balotelli hefur skorað 1 mark í 13 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en sjö þessara leikja var hann í byrjunarliðinu. Balotelli spilaði síðast fyrir City í tapleiknum á móti Manchester United 9. desember síðastliðinn.

„Hann er einstakur leikmaður með einstaka hæfileika. Þegar Marion spilar eins og hann getur best þá ræður ekkert lið við hann," sagði Zlatan Ibrahimovic í viðtali við Daily Mail.

„Manchester City er þegar langt á eftir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni en ef það er einhver leikmaður sem getur unnið titilinn fyrir City þá er það Mario. Manchester City hefur marga heimsklassa leikmenn en ég tel að Balotelli sé besti leikmaður Manchester City," sagði Zlatan Ibrahimovic.

„Roberto [Mancini] veit eins og ég að eina leiðin til þess að fá eitthvað út úr Mario er að sýna honum ást og umhyggju. Hann þarf að meðhöndla hann þannig til að koma Mario í gang og takist það þá á Manchester City enn von um að vinna enska titilinn," sagði Zlatan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×