Enski boltinn

Liverpool borgar Joe Cole áfram 10,4 milljónir á viku í 18 mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Cole.
Joe Cole. Mynd/Nordic Photos/Getty
Joe Cole er búinn að ganga frá tveggja og hálfs árs samningi við West Ham sem kaupir leikmanninn frá Liverpool. Liverpool er þó ekki búið að losa sig undan skuldbindingum sínum við leikmanninn samkvæmt frétt á talkSPORT.

Cole var með um hundrað þúsund pund í vikulaun hjá Liverpool og samningur hans á Anfield rann ekki út fyrr en sumarið 2014.

West Ham mun "aðeins" borga honum í kringum 30 þúsund á viku en næstu 18 mánuðina fær hann 50 þúsund pund á viku frá Liverpool sem gera um 10,4 milljónir íslenskra króna í hverri viku.

Joe Cole hefur aðeins verið níu sinnum í byrjunarliði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni síðan að hann kom til félagsins frá Chelsea sumarið 2010. Hann hefur skorað 1 mark í 6 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Joe Cole er orðin 31 árs gamall en hann spilaði 126 fyrstu leiki sína í ensku úrvalsdeildinni fyrir West Ham á árunum 1998 til 2003 þegar hann fór til Chelsea þar sem hann átti sín bestu tímabil 2004-05 og 2005-06.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×