Erlent

Notkun aspirin tengd sjónleysi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Nordicphotos/Getty
Vísindamenn í Ástralíu hafa sýnt fram á að þeir sem reglulega nota verkjastillandi lyfið aspirin séu líklegri til þess að missa sjón.

Niðurstöður rannsóknarinnar, sem birtar voru í læknaritinu JAMA Internal Medicine, segja að þeir sem nota aspirin séu líklegri til þess að verða fyrir votri rýrnun í miðgróf sjónu. Rýrnunin skerðir miðsvæðið í sjónsviði fólks.

Rannsakendur segja niðurstöðurnar þó ekki nógu afdráttarlausar til þess að ástæða sé til að setja hömlur á notkun lyfsins.

Daglegir en litlir skammtar af aspirin draga úr líkum á hjartaáfalli hjá sjúklingum sem glíma við hjarta- og æðasjúkdóma. Þá bendir ýmislegt til þess að lyfið geti komið í veg fyrir krabbamein eins og lesa má um nánar hér.

Rannsóknin fór fram við Sydney-háskóla í Ástralíu og náði til 2,389 einstaklinga. Einn af hverjum tíu tóku aspirín að minnsta kosti einu sinni í viku. Flestir þátttakendanna voru á sextugsaldri.

Sjónpróf voru gerð eftir fimm, tíu og fimmtán ár. Rýrnunar varð vart í sjónu 9,3% þeirra sem tóku aspirín en 3,7% þeirra sem ekki notuðu lyfið.

Hægt er að kynna sér rannsóknina nánar á fréttavef BBC, sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×