Spænska lögreglan hefur lagt hald á 4,1 tonn af kókaíni og handtekið þrjá menn í tengslum við málið.
Þetta er næststærsti fíkniefnafundur í sögu Spánar en kókaínið fannst í vörugeymslu í héraðinu Alicante. Verðmæti þessa kókaíns er um 250 milljónir evra eða sem svarar til 43 milljarða króna.
Kókaínið var flutt til Spánar með skipi frá Kólombíu en það var falið í gámum með nautahúðum. Húðirnar hafði skóframleiðandi pantað.
Kókaínið var ætlað til sölu á Spáni og víðar í Evrópu, að sögn spænsku lögreglunnar.
