Innlent

Tal stjórnmálamanna byggt á vanþekkingu á tæknimálum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Eftirlit með netumferð er gagnslaust ef hver sem er getur auðveldlega dulkóðað alla sína netumferð. Það er álíka gáfulegt og að setja á fót tolleftirlit sem rýnir í alla pakka nema þá sem hafa verið innsiglaðir."

Þetta er skoðun tölvunarfræðingsins Salvars Þórs Sigurðarsonar í innsendri grein sem ber titilinn „Innsiglað klám" í Fréttablaðinu í dag. Þar lýsir hann skoðun sinni á tilraun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við að hefta aðgang að klámi á netinu.

„Ég ætla ekki að eyða þessu plássi í að tjá mig um réttmæti þessara áforma. Nóg hefur verið rætt um það á internetinu undanfarnar vikur. Það sem ég get hins vegar tjáð mig um er hversu tæknilega mögulegt er að hafa eftirlit með efni sem sótt er á netinu: Það er ómögulegt á meðan leyfilegt er að dulkóða netsamskipti," segir Salvar Þór.

Hann útskýrir dulkóðun á þann veg að hún snúist um að umrita skilaboð frá A til B svo að þriðji aðili geti ekki lesið þau. Þannig reiðum við okkur til að mynda við dulkóðun í heimabankanum, við skil á skattframtali, þegra við pöntum vörur á netinu og í öðrum netsamskiptum sem við viljum tryggja að enginn sé að hnýsast í.

Salvar segir eftirspurn eftir öruggum samskiptum á netinu það mikla að auðveldlega sé hægt að kaupa slíka þjónustu fyrir 500-1000 krónur.

„Með því að kaupa slíka þjónustu fara allar heimsóttar vefsíður, allir tölvupóstar, öll Youtube-myndbönd og öll önnur netsamskipti dulkóðuð til og frá tölvunni," segir Salvar.

Hann fullyrðir að eftirlit með netumferð sé gagnslaust á meðan hver sem er geti dulkóðað alla sína netumferð. Hann líkir því við það að setja á fót tolleftirlit þar sem rýnt sé í alla pakka nema þá innsigluðu.

„Tal stjórnmálamanna um leiðir til að hefta aðgengi að klámi eða öðru efni á netinu er því byggt á grundvallarmisskilningi og vanþekkingu á tæknimálum. En það er svo sem ekkert nýtt."

Greinina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Innsiglað klám

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti nýlega fyrir ríkisstjórn áform sín um að spyrna við dreifingu kláms á Íslandi. Þau snúast meðal annars um að kanna hvernig hægt sé að hefta aðgang að grófu klámefni á netinu. Þetta skal gert með tilliti til þess að klámnotkun hafi færst í aukana hér á landi og að hún geti haft bein áhrif á viðhorf ungs fólks til kynlífs og kynfrelsis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×