Enski boltinn

Fellaini tilbúinn að spila út samninginn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Fellaini
Fellaini Nordicphotos/Getty
Marouane Fellaini segist vilja leika á stærra sviði fótboltans en hann er samningsbundinn Everton og er til búinn að leika út samninginn.

Fellaini hefur leikið mjög vel með Everton á leiktíðinni og er talið að félagið fái tilboð í leikmanninn nú í janúar en hann á enn þrjú og hálft ár eftir af samningi sínum við félagið.

„Ég vil ná lengra í fótbolta en ég er samningsbundinn Everton til 2016 og ef þeir vilja þá mun ég leika út samninginn,“ sagði Belginn öflugi.

Fellaini kemur inn í lið Everton á ný á morgun, þegar liðið mætir Newcastle United, eftir að hafa tekið út þriggja leikja bann fyrir að skalla Ryan Shawcross hjá Stoke City.

Skotinn David Moyes knattspyrnustjóri Everton hefur hvatt leikmanninn til að taka Lionel Messi sér til fyrirmyndar og hætta að láta andstæðinga sína æsa sig upp.

„Sá besti sem þú getur litið til er Lionel Messi. Allir reyna að ná honum og þeir reyna allt,“ sagði Moyes.

„Allt sem hann gerir er að standa upp og halda áfram. Það segir fólki; sama hvað þú gerir þá hefur það engin áhrif á mig.

„Ég segi Felli að þú verður bara að halda haus. Ef ég væri að spila á móti Felli myndi ég reyna að æsa hann upp,“ viðurkenndi Moyes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×