Innlent

Lognið kom í veg fyrir að varðeldurinn breiddi úr sér

Mynd úr safni
Mynd úr safni
Tilkynnt var um eld í skógi, rétt ofan við tjaldsvæði í Tungudal á Ísafirði í morgun. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var töluverður eldur í trjám á um 25 fermetra svæði og eftir að þeir höfðu barist við eldinn með slökkvitækjum var ákveðið að kalla út slökkvilið sem náði tökum á eldinum fljótt.

Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra höfðu einhverjir gestir kveikt varðeld og farið frá honum. Talið er að veðrið hafi komið í veg fyrir að eldurinn næði að breiðast út en blankalogn var á svæðinu.

Að mati slökkviliðsmanna hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum hefði verið gola eða vindur því gróður er mjög þurr á svæðinu auk þess sem þar eru sumarhús og tjöld í kring.

Ekki er vitað hver kveikti eldinn en að sögn varðstjóra hafa lögreglumenn ítrekað slökkt varðeld sem gestir í bænum hafa kveikt um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×