Fótbolti

Behrami: Eigum von á erfiðum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valon Behrami í leik með Napoli.
Valon Behrami í leik með Napoli. Nordic Photos / Getty Images
Valon Behrami, leikmaður Napoli og svissneska landsliðsins, reiknar ekki með því að það verði auðvelt að leggja íslenska liðið að velli á morgun.

Liðin mætast þá í undankeppni HM 2014 og fer leikurinn fram á Laugardalsvelli. Behrami sat fyrir svörum blaðamanna í Reykjavík í morgun og lofaði íslenska landsliðið.

„Ég held að þetta verði erfiður leikur. Ísland hefur hingað til staðið sig vel í þessum riðli," sagði Behrami.

„Það eru margir góðir leikmenn í íslenska liðinu. Þeir hlaupa mikið og berjast um hvern bolta. Gylfi Sigurðsson er svo mjög öflugur sóknarmaður. Þetta verður ekki auðvelt fyrir okkur en við erum líka með gott lið."

„Ísland er nú einu stigi á eftir okkur í riðlinum og af þeim ástæðum verður þessi leikur mjög mikilvægur fyrir okkur. Það var mikil synd að missa leikinn gegn Noregi í jafntefli á lokamínútunum en við erum hættir að hugsa um hann og einbeitum okkur að Íslandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×