Fótbolti

Barnetta: Viljum verja efsta sætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tranquillo Barnetta í leik með Schalke í Þýskalandi.
Tranquillo Barnetta í leik með Schalke í Þýskalandi. Nordic Photos / Getty Images
Tranquillo Barnetta segir enga hættu á því að svissneska landsliðið muni vanmeta það íslenska í leik liðanna á Laugardalsvelli á morgun.

„Þetta er toppleikurinn í riðlinum. Þeir voru kannski ekki margir sem bjuggust við því að þessi leikur yrði leikur tveggja efstu liðanna í riðlinum," sagði Barnetta á blaðamannafundi í morgun.

„Við hlökkum til leiksins. Það eru þrjú mikilvægt stig í húfi og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að spila vel."

Sviss gerði 1-1 jafntefli gegn Noregi á föstudagskvöldið þar sem Norðmenn skoruðu jöfnunarmarkið á lokamínútum leiksins.

„Við hefðum gjarnan viljað vinna Noreg en við fengum bara eitt stig úr leiknum. Nú viljum við gera allt sem við getum til að vinna þessi stig til baka gegn Íslandi. Þrátt fyrir jafnteflið héldum við efsta sætinu og við lítum því fram á veginn. Við ætlum að verja efsta sætið gegn Íslandi á morgun."

Barnetta, sem leikur með Schalke í þýsku úrvalsdeildinni, segir að nú til dags megi aldrei vanmeta andstæðinga sína í alþjóðlegri knattspyrnu.

„Það er engin hætta á því að við munum vanmeta Ísland. Við höfum kynnt okkur liðið, séð leikina þeirra og vitum að það eru margir góðir leikmenn í íslenska liðinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×