Innlent

Teiknuðu kort af San Francisco

Kortið
Kortið
Fyrirtækið Borgarmynd hefur unnið að gerð handteiknaðs korts af San Francisco, en verkið er unnið fyrir hönnunarstofuna The Open Company, þar í borg. Kortið er allt handteiknað og vatnslitað og unnið eftir tölvugerðum þrívíddarmódelum, loftmyndum og ljósmyndum víðsvegar að úr borginni. Kortið hampar meðal annars 40 bestu veitingastöðum borgarinnar að mati starfsmanna hönnunarstofunnar.

Kortið er prentað á alveg sérstakan vatns- og rifþolinn pappír, sem brotinn er saman í sérhæfðri verksmiðju í Japan. Bara á þessum eina stað í Japan var hægt að brjóta kortið rétt, en um er að ræða svokallað Miura brot, sem þróað var af samnefndum geimvísindaverkfræðingi fyrir sólarsellur gervihnatta. Þetta brot er alveg stórmerkilegt og kortið eiginlega sjálf-sambrjótandi.

„Borgarmynd hefur einnig opnað kortavefinn icelandillustrated.com þar sem sjá má handteiknað þrívítt Íslandskort frá Borgarmynd. Íslandskortinu er einnig dreift í 75.000 fríum eintökum ár hvert. Kortið var unnið af Pétri Stefánssyni og Snorra Þór Tryggvasyni hjá Borgarmynd, með aðstoð Ómars Ragnarssonar fréttamanns með meiru. Kortavefurinn skartar einnig tvöhundruð ljósmyndum víðsvegar að á Íslandi.

Borgarmynd gerir einnig og gefur út handteiknað Reykjavíkurkort sem nefnist Reykjavík Center Map, en það hefur verið gefið út í 50.000 fríum eintökum undafarin 3 ár. Kortin rjúka út, enda falleg, skemmtileg að skoða og gott hjálpartæki fyrir ferðalanga. Þessi tegund korta gerir mörgum auðveldara að rata um og gefur kost á mun sterkari sjónrænum tengingum við umhverfið ásamt því að vera skemmtilegir minjagripir. Borgarmynd fjármagnar útgáfuna með sölu upplýsingaramma á kortinu þar sem verslanir, hótel og veitingastaðir geta náð athygli ferðamannsins," segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×