Innlent

Upplýsingafulltrúi gæti aukið traust á dómskerfið

BBI skrifar
Sindri M. Stephensen veifar tölublaði Úlfljóts einbeittur á svipinn.
Sindri M. Stephensen veifar tölublaði Úlfljóts einbeittur á svipinn.
Það stendur dómstólum nær að efla kynningarstarf sitt og reyna að auka trúverðugleika sinn, mögulega með því að gera út upplýsingafulltrúa Hæstaréttar. Þetta segir Sindri M. Stephensen, ritstjóri Úlfljóts, tímarits laganema í stuttu ávarpi fremst í nýjasta tölublaðinu. Þar veltir hann vöngum yfir litlu trausti þjóðarinnar á dómskerfi landsins.

Í nýlegri mælingu kemur í ljós að 38% þjóðarinnar treystir dómskerfinu, „og verður það að teljast óviðunandi í vestrænu réttarríki," segir Sindri M. Stephensen, ritstjóri Úlfljóts í ávarpi í blaðinu. Hann telur að þar sé ekki við almenning að sakast. Dómstólar þurfi að gera ráð fyrir auknu samstarfi við fjölmiðla, jafnvel með stöðu löglærðs upplýsingafulltrúa hjá dómstólum svo einhver geti útskýrt niðurstöður dóma á mannamáli.

Þar endurómar hann skoðanir Róberts R. Spanó, forseta lagadeildar HÍ, sem gerði málið að umfjöllunarefni á lagadeginum 4. maí síðastliðinn.

„Á síðastliðnum árum hefur vottað æ meira fyrir hatri í garð lögfræðistéttarinnar sem að miklu leyti byggist á fáfræði um störf lögfræðinga. [...] Í hugum sumra Íslendinga eru lögfræðingar lítið annað en sjálfumglaðir peningaplokkarar sem svífast einskis til þess að komast að þeirri niðurstöðu sem hentar þeim hverju sinni," segir Sindri og telur að við því megi bregðast á ýmsan hátt, t.d. með því að fulltrúar stéttarinnar leiðrétti rangfærslur af yfirvegun og sanngirni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×