Fótbolti

Svissneskir fjölmiðlar: Dæmigerður vinnusigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Diego Benaglio átti stórleik með Sviss í gær.
Diego Benaglio átti stórleik með Sviss í gær. Nordic Photos / Getty Images
„Ein typischer Arbeitssieg," segir á forsíðu Zürichsee Zeitung og vísar þar með til 2-0 sigurs Sviss á Íslandi í undankeppni HM 2014 í gær.

Leikurinn fór fram á Laugardalsvelli í gær og gerðu fjölmiðlar í Sviss mikið úr íslenska haustkuldanum. „Sigur í frystikystunni á Laugardalsvelli," sagði í grein Blick.

Tages-Anzeiger segir að leikmenn Sviss hafi ekki verið sannfærandi í leiknum en að 2-0 sigur hafi verið góð niðurstaða. Berner Zeitung og fleiri fjölmiðlar taka undir þetta.

Basler Zeitung lítur á björtu hliðarnar og segir að þetta sé besta byrjun Sviss í undankeppni stórmóts í 20 ár. „Við verðum í efsta sætinu í riðlinum í að minnsta kosti 157 daga."

20 Minuten hrósar Tranquillo Barnetta fyrir markið sem hann skoraði gegn sterkri vörn íslenska liðsins.

Flestir fjölmiðlar eru þó sammála um að markvörðurinn Diego Benaglio hafi verið besti leikmaður Sviss í leiknum en Blick gaf honum hæstu einkunn - 6 af 6 mögulegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×