Innlent

Töluverð endurnýjun framundan í Hæstarétti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands.
Búast má við töluverðri endurnýjun í Hæstarétt Íslands á næstunni. Af þeim tólf dómurum sem skipaðir eru hefur um þriðjungur áunnið sér rétt til þess að hætta störfum vegna aldurs. Samkvæmt lögum hafa hæstaréttardómarar rétt til þess að hætta störfum 65 ára gamlir án þess að laun skerðist.

Innanríkisráðuneytið auglýsti í morgun tvö embætti dómara við Hæstarétt laus til umsóknar. Þar með er ráðuneytið að bregðast við brotthvarfi þeirra Jóns Steinars Gunnlaugssonar og Garðars Gíslasonar, en eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun munu þeir láta af embætti þann 1. október næstkomandi. Jón Steinar verður 65 ára á árinu og Garðar verður sjötugur.

Gunnlaugur Claessen hefur nú þegar náð 65 ára aldri og Árni Kolbeinsson nær honum í ár, raunar í þessum mánuði. Önnur af tveimur konum réttarins, Ingibjörg Benediktsdóttir, nær þeim aldri svo á næsta ári. Þótt þau þrjú séu öll að ná tilskyldum aldri, eða þegar komin á hann, hefur ekkert þeirra gefið neitt upp um það hvort þau hyggist hætta eða vera áfram til sjötugs, eins og þau hafa rétt til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×