Innlent

Stefnir í bótakröfumál á báða bóga

Framkvæmdastjóri Bíla og fólks segist ekki ætla að láta hirða af sér afrakstur markaðssetningar á hringleiðinni sísvona. fréttablaðið/gva
Framkvæmdastjóri Bíla og fólks segist ekki ætla að láta hirða af sér afrakstur markaðssetningar á hringleiðinni sísvona. fréttablaðið/gva
Harðar deilur standa nú á milli sveitarfélaga á Suður- og Austurlandi og ferðaþjónustufyrirtækisins Bíla og fólks. Nú hefur Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) látið setja lögbann á akstur fyrirtækisins milli Egilsstaða og Hafnar og í júlíbyrjun fóru Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi (SASS) fram á lögbann á akstur fyrirtækisins þar. Það var samþykkt en þó ekki fylgt eftir.

"Ástæðan er sú að farið var fram á svo háa tryggingu að við hefðum þurft að kalla saman til stjórnarfundar til að fá samþykki til slíks,? segir Elfa Dögg Þórðardóttir, formaður SASS. "Við tökum svo stöðuna aftur í haust og sjáum til með framhaldið," bætir hún við.

Ástæðan fyrir þessum kröfum er sú að sveitarfélögin telja að akstur Bíla og fólks stangist á við sérleyfislög en fyrirtækið er ekki með sérleyfi á þessum leiðum. Í fyrra tóku sveitarfélögin við ábyrgð og eftirfylgni á sérleyfisakstri. Valdimar O. Hermannsson, stjórnarformaður SSA, segir að sambandið hafi orðið fyrir margra milljóna króna tekjumissi vegna ólöglegrar samkeppni frá Bílum og fólki. "Við viljum setjast niður að samningum við þá þar sem meðal annars yrði samið um einhverjar bætur vegna þessa en annars fer þetta fyrir dómstóla," segir hann.

Óskar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bíla og fólks, segir fráleitt að fyrirtækið borgi bætur vegna þessa. Hins vegar muni fyrirtækið kæra SSA fyrir það tap og álitshnekki sem aðgerðir þess hafa kostað það. "Ég byrjaði árið 2006 að markaðssetja hringferðirnar. Þá fóru um tvö til þrjúhundruð ferðamenn hringinn en nú gera það um fimmtán hundruð manns. Þetta er afraksturinn af okkar markaðssetningu og þeir fá ekkert að rífa hann af okkur sísvona. Þeir verða bara að róa og fiska eins og aðrir," segir Óskar.

Valdimar er alls ósáttur við framgöngu fyrirtækisins í þessu máli. "Það sem okkur þykir sárast er að þeir gerðu ekki einu sinni tilboð í sérleyfin, sem hefði verið heppilegt því þeir voru með sérleyfin í fyrra og búa því að reynslunni, heldur halda þeir áfram að aka þarna algjörlega á sínum forsendum." Óskar segir að ekkert fyrirtæki hafi gert tilboð eftir að fyrstu útboðsgögnin lágu fyrir en síðan hafi verið haft samband við öll fyrirtækin sem hafi sótt umboðsgögn nema Bíla og fólk og þeim boðið að gera tilboð á nýjum forsendum.

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×