Innlent

Margir volgir fyrir því að gefa kost á sér til formanns

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
Af þeim sem helst hafa verið nefndir til sögunnar sem mögulegir arftakar Jóhönnu Sigurðardóttir á formannsstóli Samfylkingarinnar er það aðeins Össur Skarphéðinsson sem útilokar framboð. Fréttablaðið ræddi við þá sem helstir hafa verið nefndir sem formenn.

Árni Páll Árnason segist enn vera að melta tíðindin og efst í huga sé þakklæti til Jóhönnu fyrir hennar góðu störf. „Hún sem stjórnmálamaður er algjörlega einstök í íslenskri stjórnmálasögu."

Guðbjartur Hannesson tekur í sama streng og segir að tilkynning Jóhönnu hafi komið sér á óvart. „Við erum að missa frábæran formann. Nú þurfum við að meta stöðuna með okkar flokksfólki og hvað tekur við." Hann útilokar ekki framboð en segir að flokksfélagarnir ráði því.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir segist skilja vel að Jóhanna vilji hætta á þessum tímapunkti. „Það var mikið ákall eftir hennar kröftum og hún hefur frá 2009 náð með farsælum hætti að stýra flokknum og landinu."

Katrín Júlíusdóttir segir algjörlega ótímabært að gefa nokkuð upp um sín áform, daginn sem vinsæll formaður tilkynnir um starfslok sín og hið sama segja Dagur B. Eggertsson og Helgi Hjörvar.

„Við í Samfylkingunni eigum núna fram undan að ræða þessa nýju stöðu og meta hvernig forystumálum okkar verður best skipað," segir Helgi.

Össur er hins vegar afdráttarlaus, hann hafi löngu skýrt frá því að hann hafi engan hug á að verða aftur formaður Samfylkingarinnar. En hefur hann hugmyndir um hver það ætti að vera?

„Fullt af hugmyndum, en ég vil ekki reifa þær á þessu stigi."

kolbeinn@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.