Innlent

Endurgreiðslur vegna kvikmynda hækka

Kvikmynd Christophers Nolan, Batman Begins, er ein fjölmargra smella frá Hollywood sem var tekin upp á Íslandi á síðustu árum.
Kvikmynd Christophers Nolan, Batman Begins, er ein fjölmargra smella frá Hollywood sem var tekin upp á Íslandi á síðustu árum.
Vinsældir Íslands meðal erlendra kvikmyndaframleiðenda aukast ár frá ári. Endurgreiðslur til framleiðenda hafa aldrei verið jafn háar og 2012. Alls hafa 26 erlendar kvikmyndir fengið endurgreiðslu frá ríkinu og 93 íslenskar myndir.

Íslenska ríkið hefur endurgreitt meira til kvikmyndaframleiðanda það sem af er þessu ári heldur en allt árið í fyrra, eða 392 milljónir króna.

Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu voru 190 milljónir endurgreiddar til framleiðenda árið 2010, þar af rúmlega 20 milljónir til erlendra framleiðenda, en samkvæmt lögum frá 2001 fá kvikmyndagerðarmenn endurgreidd tuttugu prósent framleiðslukostnaðar frá ríkinu. Samkvæmt því var framleiðslukostnaður vegna kvikmyndagerðar tæpir tveir milljarðar fyrri hluta þessa árs.

Innlendir framleiðendur fá yfirleitt hærri endurgreiðslur en þeir erlendu, enda eru þeir mun fleiri. Árið 2006 var þar undantekning, þegar erlendir framleiðendur fengu 122 milljónir endurgreiddar en 43 fóru til íslenskra.

Aldrei hafa fleiri erlendar kvikmyndir verið teknar upp hér á landi eins og undanfarin tvö ár. Fjöldi innlendra verkefna hefur að sama skapi aukist.

Jón Óskar Hallgrímsson, formaður nefndar iðnaðarráðuneytisins um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, segir greiðslurnar vera hugsaðar sem vítamínsprautu fyrir kvikmyndaiðnaðinn. Hann getur ekki gefið upp upphæðir endurgreiðslna til einstakra verkefna, þar sem ársreikningar þeirra séu ekki opinber gögn.

Einar Tómasson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu, segir þróunina afar ánægjulega og benda til að vinsældir landsins séu alltaf að aukast.

„Þetta er afskaplega gott mál. Þetta þýðir fjölgun verkefna, meiri erlendar tekjur og fleiri störf,“ segir hann. „En í þessum tölum eru heldur ekki auglýsingatekjurnar sem koma inn þegar stjörnurnar koma til landsins og „tvíta“ um hversu æðislegt það er að vera á Íslandi.“ Einar segir umfjöllun leikara og kvikmyndagerðarfólks um landið vera ómetanlega og erfitt sé að ná utan um hversu háum fjárhæðum hún skili í kassann. Varðandi ástæður þessara vaxandi vinsælda segir hann að tuttugu prósenta endurgreiðslan skipti vissulega miklu máli, en einnig andinn í landinu og vilji stjórnvalda til að koma til móts við framleiðendur.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×