Innlent

Virðist sem óréttlætið hafi náð út yfir gröf og dauða

Ein þeirra grafa sem geymir Hugsast getur að þarna séu jarðneskar leifar manns sem minna mátti sín meðan hann var og hét og þær því ekki fluttar yfir í nýja kirkjugarðinn.mynd/guðný zöega
Ein þeirra grafa sem geymir Hugsast getur að þarna séu jarðneskar leifar manns sem minna mátti sín meðan hann var og hét og þær því ekki fluttar yfir í nýja kirkjugarðinn.mynd/guðný zöega
Á Seylu er miðaldakirkjugarður nokkur sem kemur reyndar við sögu í Sturlungu en þar var skagfirski höfðinginn Oddur Þórarinsson grafinn. Þessi vígfimasti maður landsins var reyndar í banni þegar hann var veginn svo hann mátti ekki liggja í vígðri mold. En menn dóu ekki ráðalausir á Sturlungaöld svo hann var grafinn inn undir kirkjuvegginn á Seylu.

Það kom fornleifafræðingum því á óvart þegar þeir voru að fara að skoða þennan miðaldakirkjugarð að bandarískir sérfræðingar komu niður á annan kirkjugarð þegar þeir voru við jarðsjárrannsóknir á fornu bæjarstæði Seylubæjar sumarið 2009. Einnig fundust þar leifar lítils mannvirkis sem líklega hefur verið kirkja.

Guðný Zoëga fornleifafræðingur telur að sá kirkjugarður hafi verið aflagður nokkru fyrir gjóskufallið mikla úr Heklu 1104. Nú í sumar er búið að skoða þar sjö grafir og segir Guðný það athyglisvert sem þar fannst og eins hitt sem ekki fannst. Af þessum sjö gröfum voru aðeins bein í fjórum. Hvað veldur því?

„Í kristnirétti lögbókarinnar Grágásar, sem ritaður var á fyrri hluta 12. aldar, er ákvæði um að bein skuli flutt úr kirkjugörðum séu þeir, einhverra hluta vegna, lagðir niður,“ segir hún. „Í raun vitum við ekki hvenær þessi lög urðu virk en þetta gæti verið til marks um að þarna hafi þessum sið eða lögum verið fylgt.“

Það vekur einnig athygli hvaða grafir eru tómar en það eru þær sem eru nær kirkjunni, sem staðið hefur í miðjum kirkjugarðinum. Þar var venjulega heldra fólk grafið niður en hinir sem minna máttu sín fengu að hvílast út við kirkjugarðsvegginn. Það gæti verið vísbending um að menn hafi haft minna fyrir því að flytja leifar almúgafólksins þegar kirkjugarðurinn var aflagður. Guðný segir þó ekki loku fyrir það skotið að aðrar og hversdaglegri ástæður geti legið þar að baki. „Kannski var þetta bara tímasparnaður að taka svona innst úr garðinum,“ segir hún.

Eins vakna spurningar sem snúa að samviskusemi fornmannanna en þeir virðast aðeins hafa tekið hluta af líkamsleifunum úr sumum gröfum. Til dæmis hefur sköflungur og fótabein orðið eftir í tveimur gröfum.

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×