Innlent

Skoða saltfisk með segulómun

Verkun á fiski er ólík milli svæða og ekki á það síður við um helstu saltfiskmarkaði en hér á Íslandi.fréttablaðið/gva
Verkun á fiski er ólík milli svæða og ekki á það síður við um helstu saltfiskmarkaði en hér á Íslandi.fréttablaðið/gva
Matís og Íslenskir saltfiskframleiðendur (ÍSF) standa að nýju verkefni þar sem dreifing salts og vatns um vöðva í saltfiski verður rannsökuð og hvernig mismunandi meðhöndlun hefur áhrif á gæði lokaafurðarinnar. Til verkefnisins fékkst styrkur frá AVS-rannsóknasjóði. Meðal markmiða verkefnisins er að finna ástæðu þess að gallar finnast í fiskinum og að koma í veg fyrir myndun þeirra með bættum verkunaraðferðum. Lokamarkmiðið er að bæta vöru sem flutt er á hefðbundna markaði og vinna nýja.

Stuðst verður við nýjustu tækniframfarir innan matvælarannsókna, meðal annars segulómun, auk hefðbundinna efna- og eðliseiginleikamælinga. Segulómun kannast flestir við, en þá í samhengi við rannsóknir á sjúkrahúsi. Rannsóknir með tækninni innan matvælarannsókna eru tiltölulega nýjar af nálinni og hafa fram að þessu ekki verið framkvæmdar í íslenskum verkefnum.

Í verkefninu verður segulómtæknin notuð til að veita innsýn í uppbyggingu vöðvans og dreifingu vatns og salts um hann með myndrænum hætti. Einn helsti kostur þessarar tækni er að hún hefur engin áhrif á sýnin. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×