Innlent

Deilt um vist sjúkra fanga

Auðvelt er að koma líkamlega veikum föngum á viðeigandi stað en öðru máli gegnir um andlega veika segir Páll.
Auðvelt er að koma líkamlega veikum föngum á viðeigandi stað en öðru máli gegnir um andlega veika segir Páll. fréttablaðið/gva
Brýnt er að finna úrræði fyrir geðsjúka fanga, segir Páll Winkel fangelsismálastjóri en fangelsismálayfirvöld lenda oft í því að þurfa að vista geðsjúka án þess hafa aðstæður né starfsmenn til þess.

„Við höfum allar aðstæður til að vista sakhæft fólk,“ segir Páll. „Fólk sem skilur þýðingu refsingar og svo framvegis. En við höfum hins vegar hvorki aðstæður né starfsfólk til að sinna alvarlega veikum föngum, hvort sem þeir eru veikir líkamlega eða andlega. Í þeim tilfellum sem um líkamleg veikindi er að ræða þá höfum við ekki lent í neinum vandræðum með að koma viðkomandi á spítala en þegar veikindin eru andlegs eðlis þá höfum við lent í stórkostlegum vandræðum með að koma viðkomandi á viðeigandi stað. Um þetta deilum við og starfsmenn á geðdeildum.“

Hann segir það misjafnt hversu oft slíkar aðstæður komi upp.

RÚV sagði nýlega frá því að maður sem var á Kleppi í 15 ár sé nú vistaður á Litla-Hrauni og svo annar sem árum saman hefur verið vistaður á réttargeðdeildinni að Sogni, en hún var nýlega flutt til Reykjavíkur.

„Við munum halda áfram að berjast fyrir því að fólkið komist á viðeigandi staði,“ segir Páll en nú þegar hefur vandamálið verið kynnt heilbrigðis- og velferðaryfirvöldum.- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×