Innlent

Fjölskyldufólk streymir aftur í frí til útlanda

Ódýrari ferðir hafa meðal annars stuðlað að því að fjölskyldur fara nú oftar til útlanda.
Ódýrari ferðir hafa meðal annars stuðlað að því að fjölskyldur fara nú oftar til útlanda. fréttablaðið/valli
Sprenging hefur orðið sumarfrísferðum fjölskyldufólks til útlanda, segir forstjóri Úrvals Útsýnar. Þetta var sá hópur sem sparaði við sig í ferðalögum eftir hrun. Markaðsaðstæður hafa verið ferðalöngum í vil.

Fjölskyldur hafa nú byrjað að njóta sumarfrísins í útlöndum í meiri mæli en áður. Í júní ferðuðust rúmlega fimm prósent fleiri Íslendingar til útlanda en í sama mánuði í fyrra.

Þessu finna ferðaskrifstofurnar verulega fyrir og segja fjölskyldur nú byrjaðar að ferðast meira en áður.

„Við höfum upplifað talsverða eftirspurn og strax í fyrra fór markaðurinn að taka hressilega við sér,“ segir Þorsteinn Guðjónsson, forstjóri Úrvals Útsýnar.

„Fjöldinn af fjölskyldufólki kom verulega til baka í fyrra. Það var líka sá hópur sem hrökk mest saman eftir hrun. Þetta hefur verið algjör sprenging,“ segir Þorsteinn.

Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, hefur svipaða sögu að segja.

„Þeir sem hafa sparað við sig eftir kreppu eru aftur byrjaðir að hugsa sér til hreyfings. Fjölskyldufólk er byrjað að ferðast meira og sá hópur er farinn að vaxa aftur. Fararstjórarnir okkar úti finna vel fyrir því,“ segir Tómas.

Bæði Tómas og Þorsteinn segja markaðsaðstæður hafa haft mikil og jákvæð áhrif á ferðaplön Íslendinga. Mikil samkeppni sé á markaðnum, sérstaklega hjá lággjaldaflugfélögunum. Fleiri hafi því séð sér fært að skreppa til útlanda en áður. katrin@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×