Innlent

Vegabréfin rjúka út þetta árið

Nýju vegabréfin gilda aðeins í fimm ár sem skýrir að hluta hvers vegna fleiri sækja um nýtt vegabréf í ár. Vegabréf án örflögu sem ekki eru útrunnin eru þó í fullu gildi enn þá.
Nýju vegabréfin gilda aðeins í fimm ár sem skýrir að hluta hvers vegna fleiri sækja um nýtt vegabréf í ár. Vegabréf án örflögu sem ekki eru útrunnin eru þó í fullu gildi enn þá. fréttablaðið/teitur
Þjóðskrá Íslands gaf út mun fleiri vegabréf í júní heldur en á sama tíma í fyrra. Munurinn nemur 22,5 prósentum. Í júní voru 6.932 vegabréf gefin út en í fyrra voru þau 5.658.

„Skýringin liggur að hluta í því að 23. maí árið 2006 breyttust vegabréfin og var þá örflögu komið fyrir í þeim öllum. Samfara þessu var gildistími vegabréfanna styttur úr tíu árum niður í fimm ár,“ segir Gígja Hjaltadóttir, fulltrúi hjá Þjóðskrá Íslands.

„Nú er verið að endurnýja tvo árganga, bæði gömlu vegabréfin sem gefin voru út fyrir tíu árum og fyrstu árgangana af vegabréfum með örflögunum“.

Gígja bendir á að þetta geti þó varla skýrt hvers vegna fleiri hafa sótt um nýtt vegabréf í ár, þar sem endurnýjunin á vegabréfum með fimm ára gildistíma hófst 2011.

„Við héldum að þetta yrði stöðugt frá því í fyrra, en svo er ekki,“ segir Gígja.

„Ætli þetta skýrist ekki helst af ferðaþrá landsmanna.“

- ktg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×