Innlent

Fara á hlaupahjólum landshorna á milli

Það er löng leið sem bíður þeirra Davids og Andrea en þeir hyggjast fara á hlaupahjólum austur á Egilsstaði á fimmtán dögum.
Það er löng leið sem bíður þeirra Davids og Andrea en þeir hyggjast fara á hlaupahjólum austur á Egilsstaði á fimmtán dögum. fréttablaðið/ernir
David og Andrea hófu í gær ferð sína frá Reykjavík til Egilsstaða á hlaupahjólum. Þeir hafa aðeins fimmtán daga og nota þennan merkilega fararskjóta því gangan tekur of langan tíma. Toppurinn á tilverunni að ferðast á Íslandi.

Þeir David Ceccarelli og Andrea Gesmundo eru ítalskir ferðamenn hér á landi. Það væri ekki í frásögur færandi nema hvað þeir ferðast á hlaupahjólum frá Reykjavík og ætla, á fimmtán dögum, alla leið til Egilsstaða.

Blaðamaður og ljósmyndari Fréttablaðsins hittu þá David og Andrea þegar þeir voru komnir undir Úlfarsfell rétt fyrir hádegi í gær. „Fyrst var planið að fara yfir Kjöl en nú held ég við förum bara hringveginn,“ segir David sem er þaulvanur ferðalangur á hinum ýmsu fararskjótum.

Þeir félagar eru báðir frá Toscana-héraði og búa og starfa í bænum Prato í grennd við Flórens á Mið-Ítalíu. David er vefstjóri og myndskreytir barnabækur með fram því. Andrea er endurskoðandi fyrir hið opinbera á Ítalíu og er að fara í fyrsta sinn með vini sínum í svona ferð.

„Það er engin sérstök ástæða fyrir þessari ferð,“ segir David. „Ég hef meðal annars farið á hjólabretti eftir öllum Berlínarmúrnum, ég var fyrsti Ítalinn til að ganga eftir „mænu Englands“, frá syðsta odda að landmærunum við Skotland og hef farið gangandi yfir allt Lappland.“

Í öll skiptin hefur David verið styrktur af hinum ýmsu vörumerkjum. Nú fara þeir Andrea um landið á tékkneskum hlaupahjólum.

Spurður hvers vegna þeir séu að þessu segir David: „Á flugvellinum sáum við fullt af fólki með hjólin sín og risastórar töskur undir þau. Við þurftum bara lítinn kassa undir hjólin okkar. Það er kannski aðalástæða þess að við förum á hlaupahjólum, þau eru svo fyrirferðarlítil.“

Hann segir þá félaga aðeins hafa fimmtán daga í ferðalagið. „Það var ómögulegt að ganga þessa leið á fimmtán dögum svo við gripum eitthvað sem svipar til göngunnar. Við hefðum auðvitað getað hjólað, það hefði jafnvel orðið mjög skemmtilegt, en af því að ég hef mikinn áhuga á hjólabrettum þá varð hlaupahjólið auðvitað fyrir valinu.“

„Fyrir mér er það toppurinn á tilverunni að koma til Íslands eftir að hafa farið í svona ferð til Lapplands og Bretlands. Ég hef alltaf haft áhuga á Íslandi og nú var tækifærið. Ef maður lætur tækifærin fara frá sér þegar þau gefast mun maður tapa þeim að eilífu.“

birgirh@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×