Innlent

Steingrímur í stað Oddnýjar

steingrímur j. sigfússon
steingrímur j. sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon tók í gær við starfi Oddnýjar G. Harðardóttur sem starfandi iðnaðarráðherra fyrir Katrínu Júlíusdóttur, sem er í fæðingarorlofi. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur undirritað forsetaúrskurði um breytingar á ráðuneytum, en þær taka gildi 4. september.

Steingrímur hefur nú umboð til að vinna að stofnun nýs atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis, en inn í það renna að hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti og iðnaðarráðuneytið að fullu. Þá verða einnig til umhverfis- og auðlindaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Steingrímur segir að nú fari í gang undirbúningur nýja ráðuneytisins, ræða þurfi við starfsfólk og skoða húsnæðismál, en stefnt er að því að ráðuneytið verði undir einu þaki.

„Það verður líklegast í sjávarútvegshúsinu, það er stærsta húsið og þar er þegar svolítið laust húsnæði.“ Steingrímur segir að öllum starfsmönnum verði boðin störf, en viðbúið sé að það fækki í efsta laginu hjá ráðuneytis- og skrifstofustjórum.

„Það var hárrétt að fara í þessar breytingar og fækka ráðuneytunum úr tólf í átta. Þau hafa orðið stærri og öflugri og líkari hvoru öðru að stærð.“

Steingrímur er því í dag sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og starfandi iðnaðarráðherra. Raunar er hann einnig starfandi forsætisráðherra í fjarveru Jóhönnu Sigurðardóttur.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×