Innlent

Skrá viðsjárverða sjúklinga

„Starfsfólk og sjúklingar á Hjartagátt eru berskjaldaðir gagnvart ofbeldi og árásarhneigð af hálfu þeirra sem til deildarinnar leita," segir í erindi Landspítalans til Persónuverndar sem ekki leggst gegn áformum spítalans um að halda skrá yfir hættulegt fólk.

„Það eru dæmi þess að sami einstaklingurinn hafi endurtekið beitt hótunum og ofbeldi," segir Björn Zöega, forstjóri Landspítalans.

Á árinu 2003 fékk Landspítalinn leyfi til að skrá hættulega einstaklinga á bráðamóttökunni í Fossvogi. „Þar hafa orðið atvik sem varða heilsu starfsfólks," segir Björn. Nú telja stjórnendur Hjartagáttar á Hringbraut að þar þurfi einnig að skrá þá sem hafa sýnt af sér ofbeldishneigð gagnvart starfsfólki eða sjúklingum.

„Tilgangur þessa er að koma í veg fyrir ofbeldisverk á Hjartagátt, til verndar öðrum sjúklingum og starfsfólki deildarinnar," segir í erindi Landspítalans. „Færra starfsfólk vinnur á Hjartagáttinni þar sem starfsemi hennar er sérhæfð, en þangað geta samt (og hafa) leitað viðsjárverðir einstaklingar, jafnvel í annarlegu ástandi."

Upplýsingar um ofbeldi verða ekki í sjúkraskrá viðkomandi heldur aðeins í gagnagrunni sem verður sameiginlegur skrá bráðamóttökunnar. „Sé viðkomandi sjúklingur með virka flöggun opnast gluggi með aðvörunartexta," segir í erindinu. Slíkar flagganir eru sagðarfalla úr gildi eftir fjögur ár. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×