Innlent

Krefst greiningar á orðum um aflimun

Formaður Læknafélags Íslands sagði við Ríkisútvarpið að ekki kæmi á óvart að eitthvað færi úrskeiðis í þjónustu við sjúklinga. Á Landspítalanum hefðu fjárveitingar verið skornar niður um meira en 20%.
Formaður Læknafélags Íslands sagði við Ríkisútvarpið að ekki kæmi á óvart að eitthvað færi úrskeiðis í þjónustu við sjúklinga. Á Landspítalanum hefðu fjárveitingar verið skornar niður um meira en 20%. frétablaðið/hari
Landlæknir skoðar, að ósk velferðarráðherra, fullyrðingar formanns Læknafélags Íslands um að fjárskortur hafi verið orsök þess að taka þurfti fót af manni. Velferðarráðherra segir ekkert hafa komið á sitt borð um málið.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur ritað Landlækni erindi og óskað eftir greiningu á ummælum Þorbjörns Jónssonar, formanns Læknafélagsins, í síðustu viku. Þorbjörn sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að svo langt hefði verið gengið í sparnaði að ekki kæmi á óvart að eitthvað færi úrskeiðis í þjónustu við sjúklinga.

Ríkisútvarpið greindi frá því að maður hefði gengið á milli lækna í tvö ár áður en æxli í ökkla uppgötvaðist og skera þurfti fótinn af við hné. Það kom formanni Læknafélagsins ekki á óvart að svona gæti gerst.

„Nei, það liggur í augum uppi að þegar svona mikið fjármagn fer í burtu og vinnuálagið eykst svona mikið, þá er almennt hættan á að eitthvað fari úrskeiðis óhjákvæmilega meiri,“ sagði Þorbjörn í samtali við Ríkisútvarpið.

Guðbjartur segir málið ekki hafa komið á sitt borð og hefur óskað úttektar Landlæknis. Á formanninum hafi mátt skilja að niðurskurður hafi verið orsökin. „Ég óskaði eftir því að það yrði gerð athugun á því og hvort það hefði verið vegna fjárskorts að einhver óhöpp hefðu gerst, því það hafði ekki komið til mín.“

Guðbjartur segir eftirlitskerfið eiga að standa vaktina hvað varðar svona mál. Mjög komi á óvart ef læknar vinni öðru vísi nú en fyrir hrun og engin teikn séu á lofti um að niðurskurðurinn hafi leitt til slíkra hluta eins og þarna sé látið í skína.

„Þegar svona fullyrðing kemur frá formanni læknafélagsins finnst mér ástæða til þess að kanna hvort þetta hefur verið athugað eða ekki og hvað býr að baki svona fullyrðingu.“

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×