Innlent

Exeter-mál sérstaks saksóknara bíður Landsdóms

Rætt hefur verið um að það geti haft umtalsverð áhrif á stöðu annarra umboðssvikamála ef sýkna héraðsdóms stendur.Fréttablaðið/gva
Rætt hefur verið um að það geti haft umtalsverð áhrif á stöðu annarra umboðssvikamála ef sýkna héraðsdóms stendur.Fréttablaðið/gva
Mál sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi stjórnendum Byrs og MP banka, svokallað Exeter-mál, er eitt fjölmargra sem verður ekki tekið fyrir í Hæstarétti fyrr en eftir að dómur fellur í Landsdómi í máli Geirs H. Haarde.

Fréttablaðið greindi frá því fyrir helgi að engin stór eða fordæmisgefandi mál hafi verið tekin á dagskrá Hæstaréttar frá 13. febrúar og verði ekki fyrr en dómur fellur í Landsdómi. Slík mál eru nær alltaf dæmd af fimm reynslumestu dómurum réttarins, en fjórir þeirra eru uppteknir við störf í Landsdómi.

Í Exeter-málinu voru Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, og Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, ákærðir fyrir umboðssvik með því að lána félaginu Exeter Holding fyrir kaupum á bréfum í Byr af starfsmönnum bankans. Þeir voru allir sýknaðir í héraðsdómi í lok júní í fyrra.

Málið getur haft fordæmisgildi, en Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir þó að engin mál séu í biðstöðu hjá embættinu vegna þess og bendir á að tvær ákærur vegna umboðssvika hafi nýlega verið gefnar út.

„Við höfum sagt það að fordæmin í þessum fyrstu málum muni gefa mjög sterka vísbendingu um framhaldið. En jafnvel þótt við séum með mál sem megi líkja saman þá eru alltaf tilbrigði frá máli til máls.“- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×