Innlent

Geir fer í vitnastúkuna í dag

Landsdómur Aðalmeðferð í málinu gegn Geir H. Haarde hefst fyrir Landsdómi í dag. Á sjötta tug vitna kemur fyrir dóminn, en gert er ráð fyrir að aðalmeðferð málsins standi til loka næstu viku. Fréttablaðið/GVA
Landsdómur Aðalmeðferð í málinu gegn Geir H. Haarde hefst fyrir Landsdómi í dag. Á sjötta tug vitna kemur fyrir dóminn, en gert er ráð fyrir að aðalmeðferð málsins standi til loka næstu viku. Fréttablaðið/GVA
Aðalmeðferð í máli Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir Landsdómi hefst í dag með vitnaleiðslu. Geir er ákærður fyrir vanrækslu í starfi í aðdraganda bankahrunsins og mun bera vitni fyrstur. Gert er ráð fyrir því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, setjist því næst í vitnastól.

Geir er ákærður í fjórum liðum, en Landsdómur vísaði tveimur ákæruliðum frá í október.

Mikill pólitískur styr hefur staðið um ákæruna og voru ekki tekin af öll tvímæli um framgang málsins fyrr en á fimmtudag, þegar tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun ákæru var vísað frá á Alþingi.

Viðbúið er að á sjötta tug vitna komi fyrir dóminn. Heimildir Fréttablaðsins herma að á morgun verði sex vitni kölluð til. Fyrst Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, þá Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Í kjölfarið mun Arnór Sighvatsson, fyrrverandi aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands og núverandi aðstoðarseðlabankastjóri, bera vitni. Að því loknu verður Davíð Oddsson, fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins kallaður til.

Gert er ráð fyrir að ljúka vitnaleiðslum þriðjudaginn 13. mars. Aðalmeðferð ljúki svo með tveggja daga málflutningi verjanda og saksóknara á fimmtudag og föstudag í lok næstu viku, en eftir það fær dómurinn, sem er skipaður fimmtán dómendum, allt að sex vikum til að dæma í málinu.

Hámarksrefsing við brotunum sem Geir er ákærður fyrir er tveggja ára fangelsi.

thorgils@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×