Innlent

Tæplega 44 prósent vilja falla frá ákæru

Þjóðin er klofin í tvær jafnar fylkingar í afstöðu sinni til þess hvort Alþingi eigi að draga til baka ákæru á hendur Geir H. Haarde fyrir Landsdómi, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Alls sögðust 43,5 prósent þeirra sem afstöðu tóku til spurningarinnar mjög eða frekar fylgjandi því að draga ákæruna til baka, en 44,4 prósent sögðust því mjög eða frekar andvíg. Um 12,1 prósent sagðist hlutlaust í málinu.

Meirihluti stuðningsmanna stjórnarflokkanna er andvígur því að ákæran verði dregin til baka. Um 67,5 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar vilja halda ákærunni til streitu, líkt og 74,1 prósent stuðningsmanna Vinstri græns.

Um 75,6 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins sögðust vilja draga ákæruna til baka, en 19,3 prósent voru því andvíg. Um 60,5 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokksins vildu falla frá ákærunni.

Hringt var í 800 manns dagana 8. og 9. febrúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Ert þú fylgjandi því eða andvíg(ur) að Alþingi dragi til baka ákæruna á hendur Geir H. Haarde fyrir Landsdómi? Alls tóku 94,3 prósent afstöðu. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×